Eftir að við höfum dregið verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda munum við jafnframt þurfa að fjarlægja CO2 úr andrúmsloftinu og geyma á varanlegan hátt.
Til að hraða árangri loftslagsaðgerða þarf að flýta fyrir vísindalegri þekkingu og samtali um fleiri aðferðir sem hægt er að beita í sátt við umhverfi, samfélag og efnahag.
Í milljarða ára hafa steinefni á landi skolast út í hafið og gert það örlítið basískara. Í kjölfarið tekur hafið við CO2 úr andrúmsloftinu og geymir á varanlegan og skaðlausan hátt sem karbónöt og bíkarbónöt, sem eru stöðug form kolefnis.
Aðferðin sem gengur út á að hraða þessu náttúrulega ferli með tæknilegum aðferðum kallast aukning á basavirkni sjávar (e. Ocean Alkalinity Enhancement, OAE).
Röst sjávarrannsóknasetur er óhagnaðardrifið félag sem var stofnað sem hluti af alþjóðlegu neti rannsóknastöðva undir hatti Carbon to Sea Initiative og er ætlað að kanna hvort aukning á basavirkni sjávar sé skilvirk, örugg og varanleg leið til þess að fjarlægja CO2 úr andrúmsloftinu. Röst mun byggja upp sérhæfða aðstöðu og þekkingu hér á landi sem mun nýtast vísindasamfélaginu og frumkvöðlastarfi á þessu sviði um allan heim.
Carbon to Sea Initiative er óhagnaðardrifin bandarísk sjálfseignarstofnun sem leiðir metnaðarfulla alþjóðlega rannsóknaáætlun um aukningu á basavirkni sjávar og er starfrækt með stuðningi góðgerðasamtaka og vísindasjóða á sviði loftslagsmála.
Lækjargata 2
101 Reykjavik