
Vísindalegar rannsóknir á heilsu hafsins og uppbygging þekkingar á því sviði eru brýnar til skilnings á loftlagsbreytingum og lífríki hafsins. Ísland er í kjörstöðu til þess að leiða í þessum málaflokki og hefur mikilvægu hlutverki að gegna.
Röst sjávarrannsóknasetur vinnur að rannsóknum á lífríki sjávar við Ísland, loftslagsbreytingum og lausnum sem byggja á vísindalegum grunni. Að baki Röst er samstarf alþjóðlegs hóps vísindamanna ásamt öflugustu rannsóknarsstofnunum á þessu sviði á Íslandi.

Útbreiðsla kóralþörunga í Hvalfirði meiri en talið var
Grunnrannsóknir Rastar sjávarrannsóknaseturs og Hafrannsóknastofnunar í Hvalfirði hafa nú sýnt með fjarstýrðum neðansjávardrónum að útbreiðsla kóralþörunga (Lithothamnium sp.) er meiri en áður var talið. Kóralþörungar mynda mikilvæg búsvæði fyrir ungviði þorskfiska og annað lífríki og hafa því mikið verndargildi. Nauðsynlegt er að vernda svæðin gegn ágangi, raski og mengun. Sérstaklega þarf að gæta að áhrifum súrnunar sjávar sem hamlar kalkbindingu og vexti þörunganna.





Röst er óhagnaðardrifið félag sem er í fyrstu fjármagnað af Carbon to Sea Initiative og er hluti af alþjóðlegu neti rannsóknarstöðva undir þeirra hatti. Carbon to Sea er óhagnaðardrifin bandarísk sjálfseignarstofnun sem leiðir metnaðarfulla alþjóðlega rannsóknaráætlun um aukningu á basavirkni sjávar. Carbon to Sea er fjármagnað af virtum alþjóðlegum góðgerðarsamtökum og vísindasjóðum á sviði loftslagsmála og hefur hlotið um sjö milljarða króna í styrki frá aðilum eins og Oceankind og Grantham Foundation, sem hafa áratuga reynslu þegar kemur að verndun hafsins og rannsóknum tengdum loftslagsbreytingum.
Röst er dótturfélag loftslagsfyrirtækisins Transition Labs.


