Rannsóknaskip Rastar í Hvalfirði sumarið 2024
YFIRSTANDANDI RANNSÓKNIR
Hafmælingar með ómönnuðu yfirborðsfari (USV)
Áætluð haustið 2025

Röst hlaut styrk í gegnum bandaríska góðgerðasjóðinn National Philanthropic Trust til að kaupa ómannað yfirborðsfar smíðað af Open Ocean Robotics sem er búið nákvæmum hafrannsóknarmælitækjum. Við áætlum að nýta yfirborðsfarið í næstu rannsóknum okkar, m.a. í fyrirhugaðri sjávarflæðisrannsókn haustið 2025. Þar munum við bera saman gögn úr mælitækjum á yfirborðsfarinu við niðurstöður úr öðrum mælitækjum og meta hversu vænlegt er að nota slík yfirborðsför við aðrar mælingar í haf- og loftslagsrannsóknum.

DX ISO White
Sjávarflæðisrannsókn í Hvalfirði
Leyfi veitt frá utanríkisráðuneytinu, áætluð í tvo daga á tímabilinu 6. - 19. október 2025.

Á timabilinu 6. -19. október stefnir Röst að því að framkvæma vísindarannsókn í Hvalfirði með því markmiði að skilja flæði og hreyfingar sjávar í firðinum sem getur gefið betri mynd af hafstraumum við Ísland en áður. Þá verður stefnt að því að sannreyna niðurstöður hafstraumalíkans (sjá neðar á síðunni), með því að dreifa litlu magni af vistfræðilega skaðlausu litarefni á litlu svæði. Þá verður fylgst með dreifingunni með drónum sem eru búnir LiDAR og fjölrófsmyndavélum. Hægt er að lesa um rannsóknir sem beita svipaðri aðferðafræði hér.

Rannsóknin er samstarfsverkefni fjölmargra innlendra og erlendra vísindaaðila og óhagnaðardrifna vísindasamtaka, t.d. samtakanna [C]Worthy, bresku hafrannsóknarmiðstöðvarinnar National Oceanography Centre (NOC) og Ebb Carbon en rannsóknin er fjármögnuð af óhagnaðardrifnu samtökunum Carbon to Sea Initiative.

FYRRI RANNSÓKNIR
Hafstraumalíkan af Hvalfirði
Hófst haust 2023 - enn í þróun.

Hafrannsóknastofnun hefur gert hafstraumalíkan fyrir hafsvæðið umhverfis Ísland en líkanið nær ekki til fjarða. Röst fékk því óhagnaðardrifna rannsóknarfélagið [C]Worthy til að þróa nákvæmt staðbundið hafstraumalíkan af Hvalfirði. Líkanið er byggt á ROMS (e. Regional Ocean Model System) og var fínstillt með raungögnum. Líkanið getur m.a. hermt hringstreymi ásamt hringrás kolefnis og næringar í firðinum.

Gögnin okkar eru opin og aðgengileg öllum og því er möguleiki á að tengja Hvalfjarðarlíkanið við núverandi hafstraumalíkan Hafrannsóknastofnunar og fá nákvæmara líkan af hafstraumum við Ísland en áður.

Grunnástandsrannsóknir í Hvalfirði
Mars 2024 til maí 2025.

Áður en hafist er handa við rannsóknir er afar mikilvægt að afla vandaðra grunngagna. Við buðum því út grunnrannsóknir í Hvalfirði. Nokkur vönduð tilboð bárust, bæði frá innlendum og erlendum aðilum, en að lokum var Hafrannsóknastofnun metin hæfust til að framkvæma óháðar grunnrannsóknir á haffræði og líffræði Hvalfjarðar.

Grunnrannsóknirnar eru afar víðtækar og fela í sér 15 mánaða athuganir á eðlisfræði, karbónatefnafræði, líffræði og vistkerfum botns og uppsjávar í Hvalfirði. Öll gögn og allar niðurstöður úr grunnrannsóknum á haffræði og líffræði Hvalfjarðar verða gerð öllum aðgengileg.

Bjarni Sæmundsson, rannsóknaskip HafrannsóknastofnunarKjarnasýnataka um borð í Bjarna Sæmundssyni í einum af leiðangrum Hafrannsóknastofnunar
Loftskiptarannsókn með tvöfalt sporefni í Hvalfirði
Fór fram í júlí 2024.

Í júlí 2024 fengum við rannsóknarleyfi til að gera undirbúningsrannsókn í Hvalfirði sem fólst í því að setja vistfræðilega skaðlaust og óvirkt sporefni í sjóinn og mæla dreifingu þess um fjörðinn á sérútbúnu rannsóknarskipi.

Tilgangur rannsóknarinnar var tvíþættur:

  1. Að skoða loftskipti milli andrúmslofts og sjávar og kanna hversu háð þau eru vindhraða í firðinum.
  2. Að mæla lárétta dreifingu sporefnanna í samræmi við hreyfingu sjávar í firðinum til að sannreyna líkön og undirbúa þannig næstu rannsóknir.

Rannsóknin var samstarfsverkefni fjölmargra innlendra og erlendra vísindaaðila og óhagnaðardrifna vísindasamtaka.

Dráttarbáturinn Bjarni Þór umbreyttist í vísindaskip með sérsmíðaðri rannsóknastofu RastarDavid Ho og Lennart Bach ræða um vísindin innan um borð í sérsmíðaðri rannsóknastofu Rastar.Við vorum með aðstöðu í Breiðinni  á Akranesi og gerði út frá Akraneshöfn
FYRIRHUGAÐAR RANNSÓKNIR
Basavirknirannsókn í Hvalfirði
Beðið er eftir útfærslu íslenskra stjórnvalda á því hvernig skuli afgreiða slíkt rannsóknarleyfi

Aukning á basavirkni sjávar (e. Ocean Alkalinity Enhancement, OAE) snýst um að rannsaka hvort hægt sé að örva náttúrulegt kolefniskerfi hafsins. Aukin basavirkni sjávar hefur verið vel rannsökuð á vísindastofum og í hálflokuðum „mesocosm“-rannsóknum í áratugi en nú þarf gögn úr rannsóknum við raunverulegar hafaðstæður til að afla aukinnar þekkingar áður en hægt er að taka ákvörðun um næstu skref. Hér má lesa meira um aukingu á basavirkni sjávar.

Sótt var um rannsóknarleyfi til að gera vettvangsrannsókn á aukinni basavirkni sjávar í Hvalfirði. Íslensk stjórnvöld töldu ekki lagaramma til staðar til þess að geta veitt leyfi að svo stöddu og höfnuðu því beiðninni. Leyfi var þó veitt fyrir sjálfstæðri sjávarflæðisrannsókn, sem er fyrirhuguð í október 2025, sem ekki felur í sér aukna basavirkni sjávar.

Basavirknirannsóknin miðar að því að kanna mögulega virkni þess að nota basann natríumhýdroxíð (NaOH) til að auka basavirkni sjávar á litlu svæði. Basinn verður þynntur verulega með ferskvatni áður honum verður dreift og verður því ekki hættulegur lífríki á neinn hátt.

Stór hluti af rannsókninni verður að sannreyna vöktunar-, skrásetningar- og sannprófunaraðferðir (MRV) sem almennt eru notaðar í rannsóknum á kolefnisföngun. Basaviðbótin mun eiga sér stað á 48 til 96 klukkustundum. Umfangsmikil sýnataka og vöktun á umhverfisþáttum mun fara fram bæði fyrir rannsóknina, meðan á henni stendur og eftir að henni lýkur.

Á meðan á þessari rannsókn stendur verður einnig lögð mikil áhersla á að fylgjast með líffræðilegum og vistfræðilegum viðbrögðum við hugsanlegum breytingum á umhverfinu. Þótt við gerum ekki ráð fyrir áhrifum af þessari rannsókn mun hún gagnast vísindasamfélaginu sem rammi fyrir aðrar rannsóknir.

Rannsóknin er samstarfsverkefni fjölmargra innlendra og erlendra vísindaaðila og óhagnaðardrifna vísindasamtaka.